SunnanVinda

Te -  Camelia sinensis

Te á sér mjög langa sögu. Hráefnið í þennan drykk er úr blöðum og stundum greinum teplöntunnar, sem ber latneska heitið Camelia sinensis.

Það má segja að tegundir af tei séu fjórar, hver með sína merkilegu sögu; þ.e svart eða dökkt te sem er frekar mikið gerjað við  vinnslu, bragðsterkt og inniheldur meir kaffein en aðrar tegundir. Oolong tea (Drekate), sem er minna gerjað en það dökka, grænt te er þriðja gerðin og er það te sem er þurrkuð telauf  án gerjunar.  Að lokum nefni ég hvíta teið en það er unnið úr brumum og ungum laufum, snöggþurrkað við eld á pönnu. Innan allra þessar yfirtegunda eru svo hundruð sértegunda, sem eru sérstök vegna bæði verkunar og úr hvaða jarðvegi þau eru sprottin, veðurfar og hæð ræktunarsvæða  hafa svo alltaf áhrif á sérstöðu tegunda.  Almennt má segja að í te séu náttúruleg efni eins og kaffein, tephillin, theanin og andoxunarefni. Engin kolvetni né protein eru í te.  Te er hressandi drykkur,  sem einnig getur verið kælandi og róandi.

Te  荼  á uppruna sinn eins og svo margt í Kína og á sér sögu allt aftur um 5000 ár. Jurtin var upprunalega notuð sem lækningajurt (Hahn Dynasty) og seinna sem drykkur í samkvæmum (Tang Dynasty) og er orðin algengur drykkur í Kína um 760. Tedrykkja þróast síðan um alla Asíu og tengjast henni margvíslegar menningarhefðir, sérstaklega í Japan, Kóreu og Kína. Te berst til Evrópu  með Jesúita prestum sem dvöldu við hirð síðasta Ming keisarans og með portúgölskum sæförum sem voru í Japan um 1560. Ming keisari sendi einnig Mikael I. Rússakeisara tekönnu og nokkra tepakka 1618.  Mikill te innflutningur hófst til Evrópu í framhaldi af þessu, drykkurinn varð vinsæll í Frakklandi og Hollandi og eftir að portúgalska prinsessan Katrín af Braganza giftist Karli I. Bretakóngi og tekur með sér tekönnuna til Bretlands í maí 1662, verður ekki aftur snúið með tedrykkju í Bretlandi. Svo mikill varð innflutningur telaufa til Bretlands að til vandræða horfði um 1800 í gjaldeyrismálum þar í landi og freistuðust bretar til að láta stela fyrir sig fræjum terunnans, en útlendingum var bannaður aðgangur að teplantekrum í Kína á þessum árum. Stolnu fræin voru flutt til Indlands og hófst þar teræktunar bylting í Indverskum sveitum.  Af öðrum sögulegum te viðburðum má nefna Ópíum stríðin við kínverja frá 1832, en bretar reyndu að fjármagna tekaup sín með eiturlyfjasölu á þessum tímum. Teveislan í Boston er einnig þekkt í sögunni, en þar vestra var einnig mikil tedrykkja, sem bretar skattlögðu verulega með s.k. te-gjöldum. Mikið uppistand varð þegar borgarar í Boston gerðu uppreisn 1773 og eyðilögðu breska te farma þar í höfninni og í vöruhúsum. Innflytjendum vestur í Ameríku þótti þetta allt slæmt og gerðu jafnframt stræk með því að hætta að drekka te og fara yfir í kaffi.

Darjeeling er  hérað í  vestur Bengal á Indlandi, þ.e. lág fjallahéraðið aðliggjandi Himalayafjallgarðinum. Nafnið Darjeeling er sérstakt,  dregið af tíbeska Þórsnafninu  Dorje  eða þrumufleygur og ling  eða staður, sem útleggja má sem  Land þrumufleygsins eða Þórshamars. Terækt á sér ekki lengri sögu á Indlandi en til breskra yfirráða þar í landi um 1850 og má  aftur ítreka að fyrr á árum keyptu Bretar allt sitt te í Kína og voru verulega háðir Kínverjum á ýmsan hátt efnhagslega. Þeim tókst að smygla nokkrum fræpokum teplöntufræja, sem þeir fluttu m.a. til Darjeeling og hófu þar ræktun með afskaplega góðum árangri þ.e. teplantan þrífst vel við þann jarðveg og veðurfar sem þar er;  sumarhiti um 25°, mildir vetur, rignir talsvert en sjaldan frost.

Darjeeling er einn af þeim stöðum sem breska yfirstéttin á Indlandi hér áður flutti til á sumrin til að losna úr ofsahitanum, sem verður á láglendi Indlands.  Þarna er í dag mikil terækt, þróuð hafa verið nýjar tegundir og vinnsluaðferðir sem eru sérstakar fyrir Darjeeling, nær öll vinnsla er þó byggð á gömlu tækninni frá um 1860 - 1870. Eftir tínslu eru telaufin þurrkuð, síðan fara þau í s.k. rúlluvélar sem pressa blöðin og losa um ýmiss ensím og hvata í laufinu og í framhaldi af því eru þau sett í ákveðna tegund af gerjun í smá tíma. Eftir gerjunina eru blöðin  þurrkuð bæði í sólinni og  í reykingu eða ristun við um 90° frá viðarofnum og geta þá fengið mismunandi bragð eftir vinnsluaðferð og reykingu. Það er þarna í vinnsluferlinum sem blöðin verða dökk og stökk, þ.e. dökkt te. Lokaþáttur getur síðan verið mölun að vissu marki og flokkun eftir gæðum og kornastærðum.  Við erum með dökkt te frá Darjeeling frá búgarði sem heitir Selim Hill, eða úr Selhæðum, þetta er frekar lítill búgarður sem ræktar terunnan  á um 380 ha í um 1400 metra hæð, framleiðir um  65 – 80 tonn á ári, og starfa þar um 218 manns. Þetta gæðaafbrigði heitir Darjeeling Selim Hill FTGTOP1, sem þýðir toppar úr fyrstu tínslu um vor. Gott stórblaða te með mildum krafti og fágun, ljós gyllt í bollanum og fyrirtaks morgun- og sídegiste.

Sencha (煎茶), er grænt te, vinsælt í Japan og víðar, ferskt og fallegt teblað og fallegt á litinn. Þetta Sencha er gufuþurrkað áður en það er léttristað án þess að gerjast. Bragð, litur og gæði Sencha er breytilegt eftir héruðum. Besta Sencha teið er vorte sem kallað er Shincha, milt, sætt og vítamín ríkt með indælum ilmi og lit. Græna teið hefur ekki náð ennþá eins mikillri úbreiðslu á vesturlöndum eins og það dökka, en áhugi manna hefur vaxið verulega á seinni árum, sérstaklega eftir rannsóknir á eiginleikum græna tesins til hollustu, en það inniheldur mörg efni, sem styrkja ónæmiskerfið og þá sérstaklega gegn krabbameini. Til merkis um það má nefna að heilsufar japanskra kvenna, sem neyta fæðu, sem  í er mikið sjávarfang, hýðisgrjón og aðal drykkur þeirra er grænt te. Brjóstakrabbi er t.d. nær óþekktur meðal japanskra kvenna, sem búa við slíka neyslu í matarræði.                                                                                     BÞ/09/2009/SunnanVinda